Fara í efni

Sveitarstjórn

574. fundur 25. júlí 2024 kl. 09:00 - 09:55 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
Starfsmenn
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var færð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir

Ása Valdís Árnadóttir oddviti setti fund, bauð fundargesti velkomna og leitaði athugasemda við fundarboð, engar athugasemdir voru við boðun fundarins.

1. Fundargerðir.
a) Fundargerð 22. fundar Atvinnu- og menningarnefndar, 11. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 22. fundar Atvinnu- og menningarnefndar sem haldinn var 11. júní 2024.
b) Fundargerð 112. fundar stjórnar UTU, 25. júní 2024.
Mál nr. 1 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram að nýju fundargerð 112. fundar stjórnar UTU sem haldinn var 25. júní 2024.
Mál nr. 1; Gjaldskrá vegna móttöku og hreinsunar á seyru.
Lögð var fram að nýju gjaldskrá vegna móttöku og hreinsunar á seyru fyrir árið 2024.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagaða gjaldskrá vegna móttöku og hreinsunar á seyru hjá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs.
c) Fundargerð 20. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga, 21. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 20. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga sem haldinn var 21. júní 2024.
d) Fundargerð 74. fundar stjórnar Bergrisans bs., 24. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 74. fundar stjórnar Bergrisans bs., sem haldinn var 24. júní 2024.
e) Fundargerð 14. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 24. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 14. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 24. júní 2024.
f) Fundargerð aukaaðalfundar SASS, 7. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð aukaaðalfundar SASS sem haldinn var 7. júní 2024.
g) Fundargerð 611. fundar stjórnar SASS, 28. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 611. fundar stjórnar SASS sem haldinn var 28. júní 2024.
h) Fundargerð 28. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis, 19. júlí 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 28. fundar svæðisskipulagsnefndar Suðurhálendis sem haldinn var 19. júlí 2024.
i) Fundargerð 73. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 21. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 73. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var 21. júní 2024.
j) Fundargerð 949. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 13. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 949. fundar stjórnar Samtaka íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 13. júní 2024.
k) Fundargerð 950. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 21. júní 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 950. fundar stjórnar Samtaka íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 21. júní 2024.
2. Opnun tilboða í byggingarrétt á Borgargili 4-6.
Fyrir liggur minnisblað frá Ragnari Guðmundssyni, umsjónarmanni framkvæmda og veitna frá opnun tilboða sem bárust í byggingarrétt á Borgargili 4-6.
Eftirfarandi tilboð bárust í lóðirnar:
Tilboðsaðili: Tilboðsupphæð Tilboðsupphæð
Borgargil 4 Borgargil 6
Skjálausnir 10.150.000 kr. 10.150.000 kr.
Sveitasmiðir ehf. 10.706.469 kr. 10.706.469 kr.
Lágmarksverð byggingarréttar var kr. 9.568.619 kr. á hvora lóð. Hæsta gilda tilboð m.t.t. hæfi bjóðenda, útilokunarástæðna og réttra útreikninga í tilboðsskrá er frá bjóðanda Sveitasmiðir ehf.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að hæsta tilboði verði tekið í byggingarrétt á Borgargili 4 og Borgargili 6 og felur sveitarstjóra að ganga frá málinu.
3. Fyrirspurn til sveitarstjórnar frá Félagi lóðareigenda við Herjólfsstíg.
Fyrir liggur bréf frá Félagi lóðareigenda við Herjólfsstíg í Grímsnes- og Grafningshreppi dags. 1. júní 2024, í bréfinu er leitað svara sveitarfélagsins um það hver er réttarstaða núverandi lóðareigenda við Herjólfsstíg komi til aðal- eða deiliskipulagsbreytinga, hvort samráð við lóðareigendur muni eiga sér stað varðandi skipulagsmál á svæðinu og hver framtíðarsýn sveitarfélagsins sé varðandi samspil frístundabyggða og svæða sem skipulögð eru fyrir verslun og þjónustu.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra í samvinnu við skipulagsfulltrúa og lögmann sveitarfélagsins að svara erindinu.
4. Bréf frá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps til Brunavarna Árnessýslu.
Fyrir liggur bréf frá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps til Brunavarna Árnessýslu. Í bréfinu er þess farið á leit við BÁ að við endurskoðun samþykkta samhliða breyttu rekstrarformi, verði tekin saman tölfræði um verkefni síðustu 5 ára og þannig kortlagt hvernig verkefni BÁ skiptist á brunavarnir, slys í umferð, önnur slys, almannavarnir og verkefni tengd flugumferð og sjóumferð. Þegar slík gögn liggja fyrir verði gerð tillaga að nýrri kostnaðarskiptingu í samræmi við öll verkefni sem BÁ sinnir, en ekki horft einungis til brunabótamats fasteigna og íbúafjölda.
Sveitarstjórn þakkar sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps frumkvæðið og tekur undir þær óskir sem fram koma í bréfinu.
5. Minnisblað frá sveitarstjórn Hrunamannahrepps um skipulagsnefnd.
Fyrir liggur tölvupóstur frá sveitarstjóra Hrunamannahrepps dags. 25. júní 2024 þar sem kynnt er afgreiðsla sveitarstjórnar um samþykktir Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. og jafnframt fylgdi tölvupóstinum minnisblað frá GB Stjórnsýsluráðgjöf um skipulagsmál dags. 16. maí 2024. Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs. (UTU) er byggðasamlag 6 sveitarfélaga, Grímsnes- og Grafningshrepps, Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Ásahrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Innan byggðasamlagsins starfa byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi og aðrir starfsmenn sem vinna fyrir öll sveitarfélögin. Hvert sveitarfélag skipar fulltrúa, einn aðalmann og einn til vara, sem situr bæði í skipulagsnefnd og stjórn byggðasamlagsins. Í skipulagslögum 123/2010 6. gr. segir að verkefni skipulagsnefndar sé að „fara með skipulagsmál, þ.m.t. umhverfismat skipulagsáætlana, undir yfirstjórn sveitarstjórna. Sveitarstjórn er heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögum þessum, sbr. [42. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011], 1) svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa. Afgreiðsla á svæðis- og aðalskipulagi er þó ávallt háð samþykki sveitarstjórnar“.
Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita hefur samkvæmt gildandi samþykktum enga heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og er því eingöngu ráðgefandi nefnd sem skipuð er sveitarstjórnarmönnum úr sex sveitarfélögum sem sitja fundi tvisvar í mánuði með skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa og öðrum starfsmönnum embættisins þegar við á og ræða málin á breiðum grundvelli og leggja til bókanir út frá aðalskipulagsáætlun hvers sveitarfélags. Fundargerð skipulagsnefndar er svo send til hverrar sveitarstjórnar sem þarf að staðfesta bókanir skipulagsnefndar eða gera breytingar þegar við á. Hvert sveitarfélag hefur sitt eigið aðalskipulag sem samkvæmt 28. gr. skipulagslaga 123/2010 “er
skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag og skal taka til alls lands innan marka sveitarfélagsins. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál“. Það er því annars vegar í höndum embættismanna byggðasamlagsins að vinna eftir 6 mismunandi aðalskipulagsáætlunum og hins vegar hverrar sveitarstjórnar að vinna eftir aðalskipulagi síns sveitarfélags þegar kemur að bókunum og ákvörðunum um skipulagsmál. Skipulagsnefnd tekur ekki stjórnvaldsákvarðanir, þar skiptast fulltrúar sveitarfélaganna eingöngu á skoðunum og ræða málin út frá mismunandi sjónarhornum.
Sveitarstjórn telur núverandi fyrirkomulag skipulagsnefndar hentugt og til þess fallið að fá víðsýna nálgun á afgreiðslu þeirra mála sem koma á borð nefndarinnar. Með núverandi fyrirkomulagi geta sveitarstjórnarmenn nágrannasveitarfélaga miðlað reynslu úr sínum sveitarfélögum við afgreiðslu tiltekinna mála. Þannig megi minnka líkur á eða jafnvel koma í veg fyrir að mistök við skipulagsmál endurtaki sig. Hafa ber í huga að skipulagsnefnd er einungis ráðgefandi nefnd og sveitarstjórn er ekki bundin af afgreiðslu nefndarinnar. Fullnaðarafgreiðsla mála er því ávallt hjá sveitarstjórn.
Sveitarstjórn leggst þar af leiðandi samhljóða gegn þeirri tillögu sem nefnd er í minnisblaði GB Stjórnsýsluráðgjöf um að breyta samþykktum UTU á þann veg að skipulagsnefndir verði starfræktar í hverju sveitarfélagi með tilheyrandi aukakostnaði og álagi á starfsfólk Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.
6. Uppgjör við sveitarfélög vegna grindvískra grunnskólanemenda.
Erindi bæjarstjóra Grindavíkur, dags. 19. júní 20204, vegna uppgjörs kostnaðar vegna skólagöngu nemenda úr Grindavík skólaárið 2023-2024 lagt fram.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skólavist þeirra barna sem sóttu kennslu í Kerhólsskóla, í kjölfar almannavarnarástands, skólaárið 2023/2024 verði Grindavíkurbæ að kostnaðarlausu.
Sveitarstjórn óskar Grindvíkingum og Grindavíkurbæ velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru.
7. Reglur um húsnæði fyrir fatlað fólk á þjónustusvæði Bergrisans bs.
Lagðar fram til samþykktar reglur Bergrisans um húsnæði fyrir fatlað fólk.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða húsnæðisreglur í málefnum fatlaðs fólks á þjónustusvæði Bergrisans.
8. Umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um hvítbók í málefnum innflytjenda.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps tekur undir mikilvægi og þann metnað sem kemur fram í drögum um Hvítbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Við fögnum þeirri víðtæku vinnu sem liggur að baki þessum drögum og þökkum fyrir tækifærið til að veita umsögn.
Hér eru helstu atriði sem snúa að sveitarfélögum og tillögur okkar til úrbóta:
1. Innflytjendaráð
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps styður tillögu um að öll sveitarfélög með fleiri en 5.000 íbúa hafi innflytjendaráð en spyrjum þó hvort að það ætti að miða við ákveðið prósentu hlutfall íbúa með erlendan bakgrunn frekar en fjölda íbúa. Við leggjum ríka áherslu á að nægt fjármagn fylgi til sveitarfélaga sem og stuðningur til að innflytjendaráð geti starfað á áhrifaríkan hátt. Innflytjendaráð geta tryggt að sjónarmið innflytjenda séu tekin til greina í stefnumótun og ákvörðunum sveitarfélaga, sem stuðlar að betri aðlögun og samþættingu innflytjenda í samfélagið.
2. Aukið framboð á íslenskunámi
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur til að aukið verði framboð á íslenskunámi fyrir innflytjendur, bæði hvað varðar fjölda námskeiða og aðgengi að þeim, sérstaklega á landsbyggðinni. Ljóst er að auka þarf fjárveitingu til að tryggja færni íbúa með erlendan bakgrunn óháð þekkingarstigi. (bæði í grunn- og framhaldsnámskeiðum). Einnig er lagt til að ríkið komi á fót hvatasjóði þar sem fyrirtæki geta sótt fjármagn til að efla íslenskunám starfsmanna sinna á vinnutíma. Góð kunnátta í íslensku er lykilatriði fyrir félagslega og atvinnulega þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi. Fjölbreyttir námsmöguleikar stuðla að betri árangri í tungumálanámi.
4. Upplýsingar og þjónusta
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur til að ríki og sveitarfélög fari saman í átaksverkefni sem hefur það að grundvelli að tryggja að upplýsingar um réttindi, skyldur og þjónustu séu aðgengilegar á auðskildu máli fyrir alla íbúa og þær settar upp á nokkrum tungumálum. Skýrar og aðgengilegar upplýsingar hjálpa innflytjendum að nýta sér þjónustu og taka þátt í samfélaginu á jafnræðisgrundvelli en ekki hefur verið gert ráð fyrir auknu álagi og þeim kostnaði sem leggst á sveitarfélögin því tengt.
5. Þátttaka í íþróttum og tómstundum fyrir börn og ungmenni
Íslensk sveitarfélög þurfa að tryggja að börn og ungmenni innflytjenda hafi aðgang að skipulögðum íþróttum og tómstundum. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur til að farið verði í greiningarvinnu hvaða ferla og verkefni er þörf að á laga og bæta til að ná þessum markmiðum. Til þess að sveitarfélögin nái að fara í þá vinnu þarf að bæta við fjármagni frá ríki til sveitarfélaga til að styðja við þessi úrræði. Þátttaka í tómstundum og íþróttum stuðlar að félagslegri samþættingu og bætir sjálfsmynd barna og ungmenna.
6. Fjármagn til framkvæmda
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps leggur áherslu á að ríkið tryggi nægt fjármagn til að sveitarfélögin geti framkvæmt þær aðgerðir sem settar eru fram í hvítbókinni. Til að framkvæma metnaðarfullar aðgerðir er nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi aðgang að nægum fjármunum, hvort sem er í formi ríkisstuðnings, styrkja eða samstarfsverkefna.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps styður markmið og aðgerðir hvítbókarinnar en leggur áherslu á að tryggja nægilegt fjármagn og stuðning til að sveitarfélögin geti framkvæmt þessar aðgerðir á árangursríkan hátt. Við þökkum fyrir tækifærið til að veita umsögn og vonumst til að sjónarmið okkar verði tekin til greina.
Sveitarstjórn staðfestir umsögnina samhljóða.
9. Tilboð til sveitarfélaga um styrk til að ljúka lagningu ljósleiðara til allra lögheimila utan markaðssvæða í þéttbýli.
Skilmálar fjarskiptasjóðs, dags. 2. júlí 2024 fyrir styrkveitingum til sveitarfélaga til að ljúka lagningu ljósleiðara á lögheimili utan markaðssvæða.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna málið áfram.
10. Minnisblað til sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Lagt fram minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varðar afstöðu sveitarstjórnar til gjaldfrjálsra skólamáltíða frá og með næsta hausti.
Sveitarstjórn vekur athygli á að skólamáltíðir hafa verið gjaldfrjálsar í Grímsnes- og Grafningshreppi um árabil og verða það áfram.
11. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir gistingu í flokki II, H Frístundahús að Hvömmum 26, fnr. 223-6007.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 24. júní 2024 um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, H Frístundahús að Hvömmum 26, fnr. 223-6007.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II H að Hvömmum 26, fnr. 223-6007 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
12. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi fyrir Landsmót skáta að Úlfljótsvatni.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dags. 9. júlí 2024, um umsögn vegna tækifærisleyfis fyrir Landsmót skáta að Úlfljótsvatni.
Sveitarstjóri svaraði erindinu með tölvupósti dags. 12. júlí 2024, þess efnis að sveitarfélagið gerði ekki athugasemdir við mótshaldið.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða svar sveitarstjóra og gerir ekki athugasemdir við útgáfu tækifærisleyfis.
13. Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 147/2024, „Áform um frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja (gjaldtaka ökutækja, eldsneytis, kolefnisgjald ofl.)“.
Lagt fram til kynningar.
14. Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 140/2024. „Áform um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (námsmat)“.
Lagt fram til kynningar.
15. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 137/2024, „Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar leyfisferla, samræming málsmeðferðar o.fl. í umhverfis- og orkumálum“.
Lagt fram til kynningar.
16. Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 135/2024, „Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um merki fasteigna nr. 160/2024“.
Lagt fram til kynningar.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 9:55.

Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?