Sveitarstjórn
Ása Valdís Árnadóttir oddviti setti fund, bauð fundargesti velkomna og leitaði athugasemda við fundarboð, engar athugasemdir voru við boðun fundarins.
1. Ráðning sveitarstjóra.
Lagður fram til staðfestingar ráðningarsamningur sveitarstjóra 2025-2026.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að ráða Fjólu Steindóru Kristinsdóttur sem sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps út kjörtímabilið til ársins 2026. Fjóla mun hefja störf þann 1. febrúar næstkomandi.
2. Fundargerðir.
a)Fundargerð 22. fundar Framkvæmda- og veitunefndar, 9. desember 2024.
Mál nr. 2, 7 og 8 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 22. fundargerð Framkvæmda- og veitunefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dagsett 9. desember 2024. Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 2; Hreinsistöð á Borg.
Fyrir liggja gögn vegna umsóknar um styrk til umhverfis-, orku og loftlagsráðuneytisins vegna fráveituframkvæmda. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að sveitarstjóra verði falið að sækja um styrkinn. Oddviti upplýsir sveitarstjórn um öll gögn hafa verið send til ráðuneytisins.
Mál nr. 7; Minnisblað dags. 18.11.2024 um fund með Brunavörnum Árnessýslu vegna brunahana á stofnlögnum vatnsveitu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur minnisblað dags. 18.11.2024 um fund með BÁ vegna aðgengis að vatni til slökkvistarfa í sveitarfélaginu. Í dag er vatnsveitan með þrjá brunahana í rekstri, á Borg, í Ásborgum og á athafnasvæðinu við Borgargil. Þess utan eru brunahanar við virkjanir Landsvirkjunar og ON og við Sólheima. Að mati BÁ væri æskilegt að fjölga brunahönum en mikilvægt er að brunahanar séu staðsettir við stofnvegi sem ráða við umferð tankbíla og tryggja þarf nægjanlegan þrýsting og rennsli í brunahana ef til útkalls kemur. Í minnisblaðinu eru lagðar til fjórar staðsetningar þar sem æskilegt væri að koma upp brunahönum og kerfið myndi þola mikla vatnstöku á skömmum tíma. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til að umsjónarmanni aðveitna verði falið að sjá til þess að aðgengi að slökkvivatni verði aukið í áföngum með uppsetningu brunahana á þeim staðsetningum sem lagðar eru til í minnisblaðinu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Framkvæmda- og veitunefndar.
Mál nr. 8; Vatns- og hitaveitumál að Minna-Mosfelli.
Fyrir liggur tölvupóstur frá Einari G. Steingrímssyni þar sem óskað er eftir viðræðum við sveitarfélagið um að tengja nýtt sumarhúsahverfi að Minna-Mosfelli við vatnsveitu og hitaveitu sveitarfélagsins. Að mati framkvæmda- og veitunefndar er ekki mögulegt að tengja hverfið við vatnsveitu sveitarfélagsins á árinu 2025 enda er búið að vinna og afgreiða fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Jafnframt er bent á að allar stærri veituframkvæmdir eru unnar í gegnum útboð eða verðfyrirspurn. Varðandi möguleika á að tengjast hitaveitu sveitarfélagsins liggur fyrir að ekki er nægjanlegt vatn til staðar til að tengja ný hverfi við veituna.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða niðurstöðu Framkvæmda- og veitunefndar.
b)Fundargerð 23. fundar Skólanefndar, 12. nóvember 2024.
Mál nr. 1 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 23. fundargerð Skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dagsett 12. nóvember 2024. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 1 Erindi frá Skólaþjónustunni.
Óskað var um viðbótar starfsdag leikskóla, 19. febrúar 2025 vegna þátttöku í þróunarverkefninu „Snemmtæk íhlutun í leikskóla með áherslu á málþroska og læsi” á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Ragnheiður Jónsdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu Kerhólsskóla var gestur fundarins undir þessum lið og kynnti verkefnið. Verið er að vinna að handbók sem verður í senn málþroska- og læsisstefna leikskólans. Búið er að gera stöðumat og speglun málörvunarstunda. Rætt um áhrif málþroskaröskunar og mikilvægi verkefnisins. Skólanefnd samþykkti að breyta skóladagatalinu og bæta við auka starfsdag 19. febrúar 2025.
Vísað er til bókunar í næsta fundarlið.
c)Fundargerð 24. fundar Skólanefndar, 10. desember 2024.
Mál nr. 3 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 24. fundargerð Skólanefndar Grímsnes- og Grafningshrepps, dagsett 10. desember 2024. Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 3 Breyting á starfsdegi leikskóladeildar.
Vegna útsjónarsemi deildarstjóra í Leikskóladeild þarf ekki að fjölga starfsdögum í Leikskóladeild út af vinnu við þróunarverkefnið „Snemmtæk íhlutun í leikskóla með áherslu á málþroska og læsi“ eins og áður hafði verið samþykkt. Skólanefnd samþykkir að færa starfsdaginn sem ákveðin var 10. mars til 19. febrúar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða eftirfarandi breytingu á skóladagatali Kerhólsskóla 2024-2025, þ.e. færa starfsdag leikskóladeildar frá 10. mars 2025 til 19. febrúar 2025.
d)Fundargerð 23. fundar Atvinnu- og menningarnefndar, 17. september 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
e)Fundargerð 24. fundar Atvinnu- og menningarnefndar, 13. nóvember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
f)Fundargerð 294. fundar skipulagsnefndar UTU, 15. janúar 2025.
Mál nr. 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26, 27, 28, 29, 30 og 47 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lögð fram 294. fundargerð skipulagsnefndar UTU, dagsett 15. janúar 2025.
Eftirfarandi dagskrárliðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 20 Lónsjökull (hluti Langjökuls) í Grímsnes- og Grafningshreppi; Stofnun þjóðlendu - 2412028.
Lögð er fram umsókn Regínu Sigurðardóttur, f.h. forsætisráðuneytisins, um stofnun þjóðlendu. Um er að ræða 41 km2 landsvæði, Lónsjökull (hluti Langjökuls) innan marka Grímsnes- og Grafningshrepps, skv. úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2014, dags. 11.10.2016. Um hana fer eftir ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998 með síðari breytingum. Landeigandi er íslenska ríkið skv. 2. gr. laga nr. 58/1998. Afmörkun þjóðlendunnar er sýnd á meðfylgjandi mæliblaði dags. 21.11.2024.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við stofnun viðkomandi þjóðlendu í takt við umsókn.
Mál nr. 21 Torfastaðir 1 (L170828); byggingarleyfi; útihús - breyta notkun í gistihús – 2412035. Móttekin var umsókn, þann 09.12.2024, um byggingarleyfi að breyta útihúsum í gistihús á jörðinni Torfastaðir 1 L170828 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Samkvæmt stefnumörkun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps er heimilt þar sem er föst búseta að stunda annan minniháttar atvinnurekstur, ótengdan landbúnaði, s.s. ferðaþjónustu. Stærð bygginga í slíkri starfsemi getur verið allt að 800 fm. Umsóknin tekur til 748 fm húsnæðis þar sem núverandi útihúsum innan jarðarinnar hefur verið breytt í gistihús. Að mati sveitarstjórnar er ljóst að meginstarfsemi jarðarinnar er orðin verslunar- og þjónusta og er það því mat sveitarstjórnar að eðlilegt sé að skilgreint verði verslunar- og þjónustusvæði sem tekur til starfseminnar. Eftir atvikum getur sú breyting talist óveruleg á grundvelli fyrrgreindra heimilda aðalskipulags er varðar uppbyggingu á slíkri starfsemi á landbúnaðarlandi ef önnur skilyrði eru uppfyllt.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytta notkun húsanna í takt við framlögð gögn, þó með þeim fyrirvara að umsókn berist sem tekur til breytinga á aðalskipulagi þar sem skilgreint verði verslunar- og þjónustusvæði innan jarðarinnar.
Mál nr. 22 Seyðishólar frístundabyggð; Klausturhólar C-Gata 4a L169050 og 2c L208242; Breytt afmörkun, stærð lóða og byggingarreita; Deiliskipulagsbreyting – 2412032.
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til lóðanna Klausturhólar C-gata 4A L169050 og Klausturhólar C-gata 2C L208242 sem tilheyra frístundabyggðinni Seyðishólum í landi Klausturhóla. Afmörkun og stærðir lóða og byggingarreita breytast frá gildandi deiliskipulagi og leikvöllur á svæðinu er felldur út.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.
Mál nr. 23 Syðri-Brú L169607; Álit um átöppunarverksmiðju neysluvatns; Fyrirspurn - 2412060
Lögð er fram fyrirspurn er varðar Syðri-Brú L169607. Í fyrirspurninni felst að óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem gert er ráð fyrir athafnasvæði með möguleika á uppsetningu og rekstri átöppunarverksmiðju ferskvatns. Umrætt svæði er skilgreint sem landbúnaðarland í gildandi aðalskipulagi. Einnig er gert ráð fyrir að breyta deiliskipulagi á svæðinu þannig að felldar verði í burtu lóðir í nágrenni við umrætt svæði.
Að mati sveitarstjórnar er forsenda framlagðra áforma að svæðið verði slitið alfarið frá núverandi frístundabyggð út frá aðkomu og hugsanlegum grenndaráhrifum sökum aukinnar þungaumferðar um svæðið vegna flutninga. Að sama skapi tekur sveitarstjórn undir það sem fram kemur í fyrirspurninni er varðar nauðsyn þess að allur frágangur og hönnun slíkrar starfsemi falli vel að landi og leitast yrði við að skapa sem minnst neikvæð grenndaráhrif gagnvart ásýnd svæðisins að teknu tilliti til núverandi landnotkunar. Jafnframt bendir sveitarstjórn á að í nágrenni svæðisins er í dag stunduð efnistaka innan svæðis E13. Sveitarstjórn setur fyrirvara á um að sú starfsemi falli að slíkum áætlunum. Að öðru leyti tekur sveitarstjórn jákvætt í framlagðar fyrirætlanir og fagnar uppbyggingu hreinlegrar fjölbreyttrar atvinnustarfsemi innan sveitarfélagsins.
Mál nr. 24 Giljatunga 27 L233419; Útleiga í flokk II í frístundabyggð Ásgarðs; Deiliskipulagsbreyting – 2501012.
Lögð er fram umsókn sem tekur til breytinga á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Ásgarðs í Grímsnesi (Giljatunga og Borgarbrún). Í breytingunni felst að heimilt verði að stunda rekstrarleyfisskylda útleigu í flokki II innan svæðisins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að deiliskipulagið verði grenndarkynnt öllum hlutaðeigandi lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins.
Mál nr. 25 Selholt L205326; Stækkun byggingarreits; Deiliskipulagsbreyting – 2501013.
Lögð er fram tillaga óverulegrar deiliskipulagsbreytingar sem tekur til Selholts L205326 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í breytingunni felst að suðurhluti byggingarreits stækkar um 4 m til austurs þannig að stærð nýs byggingarreits verður um 1.025 m2. Að öðru leyti haldast skilmálar óbreyttir.
Sveitarstjórn samþykkir viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 26 Villingavatn L170831; Nytjaskógrækt og landgræðsla; Framkvæmdarleyfi -2412061
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til skógræktar og landgræðslu í landi Villingavatns L170831 í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu fornleifaskráningar fyrir svæðið og að leitað verði umsagna Náttúruverndarstofnunar og Lands og Skógar. Framkvæmdaleyfið verði auk þess grenndarkynnt eigendum aðliggjandi jarða. Unnið er að aðalskipulagsbreytingu sem tekur til ítarlegri leiðbeininga um skógræktaráform á landbúnaðarsvæðum, að mati sveitarstjórnar fellur framlögð umsókn ágætlega að þeirri breytingu.
Mál nr. 27 Kerhraun 40 L168915; Tilfærsla vegar; Framkvæmdarleyfi – 2412063.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til færslu á vegi til að bæta aðgengi að Kerhrauni 40 L168915 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Núverandi vegur liggur í gegnum lóðir 38 og 39 en fyrirhugað er að færa veginn út fyrir lóðir 38 og 39 og inn á miðsvæði og þaðan inn á lóð 40. Færsla vegarins er í takt við deiliskipulag svæðisins þar sem gert er ráð fyrir því að vegurinn sé staðsettur utan viðkomandi lóða.
Sveitastjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að mati sveitarstjórnar er framkvæmdin í takt við heimildir deiliskipulags, þar sem vegir eru skilgreindir utan lóðarmarka og því að mati sveitarstjórnar ekki þörf á að kynna framkvæmdina sérstaklega innan svæðisins. Mælist sveitarstjórn þó til þess við umsækjanda að leita samráðs við næstu nágranna um útfærslu framkvæmdarinnar á staðnum.
Mál nr. 28 Lyngdalur L168232; Skógrækt 2. áfangi; Framkvæmdarleyfi – 2412064.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til 2. áfanga skógræktar á jörðinni Lyngdalur L168232. Í framkvæmdinni felst skógrækt á um 100 ha svæði í takt við framlagða umsókn.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu fornleifaskráningar fyrir svæðið og að leitað verði umsagna Náttúruverndarstofnunar og Lands og Skógar. Framkvæmdaleyfið verði auk þess grenndarkynnt eigendum aðliggjandi jarða. Unnið er að aðalskipulagsbreytingu sem tekur til ítarlegri leiðbeininga um skógræktaráform á landbúnaðarsvæðum, að mati sveitarstjórn fellur framlögð umsókn ágætlega að þeirri breytingu.
Mál nr. 29 Ljósafossskóli L168468; Skilmálabreyting; Aðalskipulagsbreyting – 2403043.
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Svæðið sem breytingin nær til er við Ljósafossskóla L168468. Með breytingunni felst heimild fyrir aukinni gististarfsemi og uppbyggingu á svæðinu. Samkvæmt núverandi skilmálum aðalskipulags er gert ráð fyrir gistingu fyrir allt að 30 manns á svæðinu. Innan breytingar er gert ráð fyrir gistingu fyrir allt að 100 manns.
Að mati sveitarstjórnar telst framlögð breyting ekki til óverulegrar breytingar á aðalskipulagi líkt og fram kemur í greinargerð breytingarinnar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu málsins.
Mál nr. 30 Minna-Mosfell L168262; Öldusteinstún - frístundabyggð; Deiliskipulag -2410081.
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags, eftir kynningu, sem tekur til hluta frístundasvæðis F82 í landi Minna-Mosfells. Um er að ræða 1. áfanga af fjórum innan skipulagssvæðisins. Gert er ráð fyrir skilgreiningu á 21 lóð í fyrsta áfanga á bilinu 7.234 - 15.797 fm að stærð. Innan hverrar lóðar er gert ráð fyrir heimild fyrir frístundahúsi auk þess sem heimilt er að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús innan byggingareits og hámarksnýtingarhlutfalls 0,03. Umsagnir og athugasemdir bárust við kynningu og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta málinu og fela skipulagsfulltrúa að annast samskipti við málsaðila er varðar þær athugasemdir sem bárust við kynningu málsins.
Mál nr. 47 Afgreiðslur byggingarfulltrúa nr. 25-218 - 2501001F.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 8. janúar 2025.
g)Afgreiðslur byggingarfulltrúa nr. 24 -217, 18. desember 2024.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 18. desember 2024.
h)Fundargerð 117. fundar stjórnar Umhverfis- og Tæknisviðs Uppsveita bs., 16. desember 2025.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
i)Fundargerð 3. fundar Öldungaráðs Uppsveita og Flóa, 4. desember 2024.
Mál nr. 2 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram 3. fundargerð Öldungaráðs Uppsveita og Flóa, dagsett 4. desember 2024.
Eftirfarandi dagskrárliður þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar;
Mál nr. 2 Styrkir til einstaklinga og/eða félags eldri borgara á svæðinu.
Á síðasta fundi ráðsins var ákveðið að AI, starfsmaður ráðsins myndi kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum hvernig fyrirkomulag er á styrkjum til eldri borgara frá sveitarfélögum. AI sendi fyrirspurn á alla sveitarstjóra á þjónustusvæði ráðsins, svör bárust frá 4 sveitarfélögum af 5. Misjafnt er hvernig þessu er háttað, þau sveitarfélög sem eru með félög eldri borgara fá fasta styrki til að halda uppi sinni starfsemi, en þeir eru misháir á milli sveitarfélaga. Tvö sveitarfélög eru ekki með félag eldri borgara en þá er verið að niðurgreiða ýmsa þjónustu fyrir þennan aldurshóp. Auk þessara föstu styrkja sem félög eldri borgara fá er greitt í sumum sveitarfélögum fyrir ýmis námskeið s.s. sundnámskeið, yoganámskeið o.fl. Sveitarfélögin sem svöruðu eru öll að veita félagi eldri borgara fría aðstöðu til að hittast, halda fundi og ýmis konar afþreyingu einnig fá þau endurgjaldslausa tíma íþróttahúsum. Rætt var um frístundastyrk til eldri borgara og skorar öldungaráð Uppsveita og Flóa að sveitarfélög kanni þann möguleika að eldri borgurum gefist kostur að sækja um slíka styrki vegna íþrótta og tómstunda. Væri þetta þá sama fyrirkomulag og þegar foreldrar sækja um frístundastyrk fyrir börn og ungmenni í sveitarfélögunum. Vitað er um að frístundastyrkir fyrir eldri borgara eru m.a. veittir í Grímsnes og Grafningshreppi, Ásahreppi, Reykjanesbæ og Hafnarfirði.
Líkt og kemur fram í bókun Öldungaráðs þá býður Grímsnes- og Grafningshreppur upp á lýðheilsu- og tómstundastyrk fyrir 67 ára og eldri og er styrkurinn að upphæð 50.000.- krónur á ári.
j)Fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. 17. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
k)Fundargerð 20. fundar Arnardrangs, 2. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
l)Fundargerð 79. fundar Bergrisans bs., 2. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
m)Fundargerð 24. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu, 18. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
n)Fundargerð 240. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 3. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
o)Fundargerð 241. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 14. janúar 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
p)Fundargerð sameiginlegs fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 6. desember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
q)Fundargerð 595. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 29. nóvember 2024.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
3. Umsókn um tækifærisleyfi vegna Þorrablóts Ungmennafélagsins Hvatar.
Fyrir liggur beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 6. janúar 2025, um umsögn um umsókn Rögnu Björnsdóttur um tækifærisleyfi vegna þorrablóts Ungmennafélagsins Hvatar.
Sveitarstjórn veitir jákvæða umsögn um erindið.
4. Frístundastyrkur í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fyrir liggur minnisblað frá heilsu- og tómstundafulltrúa, dagsett 17. janúar 2025 þar sem lagðar eru fram þrjár tillögur að breytingum á frístundastyrk sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn tekur vel í innihald minnisblaðsins og vísar minnisblaðinu til umfjöllunar í lýðheilsu – og æskulýðsnefnd.
5. Loftslagsstefna Grímsnes- og Grafningshrepps 2024-2030.
Lögð fram Loftslagsstefna Grímsnes- og Grafningshrepp 2024-2030.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi Loftslagsstefnu og felur oddvita/sveitarstjóra að kynna hana fyrir starfsfólki og nefndum sveitarfélagsins.
6. Samningur um undirbúning umsóknar um dagþjónustu.
Lögð voru fram drög að samningi sveitarfélaganna fjögurra í Uppsveitum Árnessýslu við Sólrúnu Erlu Gunnarsdóttur um ráðgjöf og undirbúningsvinnu vegna umsóknar um heimild fyrir dagþjónusturýmum fyrir eldri borgara í sveitarfélögunum.
Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða fyrir sitt leyti.
7. Krafa um leiðréttingu á lögheimilisskráningu.
Lagt er fram bréf Þjóðskrár Íslands til sveitarfélagsins, dags. 13. janúar 2025, þar sem hafnað er beiðni sveitarfélagsins um leiðréttingu á þeirri ákvörðun Þjóðskrár að skrá einstaklinga til lögheimilis í sveitarfélaginu á grundvelli búsetu í frístundahúsi í skipulagðri frístundabyggð innan sveitarfélagsins. Beiðnin var sett fram í bréfi lögmanns sveitarfélagsins frá 27. desember 2024, og er afrit af því bréfi einnig lagt fram.
Að mati sveitarfélagsins hefur umrædd lögheimilisskráning ákveðin áhrif á skipulagningu og veitingu lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins til íbúa þess, svo sem hvað varðar menntun og velferð barna, heilsugæslu, félagsþjónustu, þjónustu við aldraða, sorphirðu og snjómokstur. Bæði hefur sveitarfélagið takmarkaðar upplýsingar um íbúa í frístundabyggðum og þá eru aðstæður víða þannig á slíkum svæðum að erfitt er að tryggja þjónustu allt árið um kring vegna skerts aðgengis. Þá telur sveitarfélagið afar óæskilegt að það hafi ekki fulla yfirsýn yfir þróun íbúafjölda í sveitarfélaginu, en slík yfirsýn er forsenda þess að sveitarfélagið geti skipulagt þjónustu til íbúa þess.
Sveitarstjórn samþykkir því samhljóða að fela lögmanni sveitarfélagsins að skjóta niðurstöðu Þjóðskrár til innviðaráðuneytisins innan þriggja mánaða kærufrests til að fá úr því skorið hvort umrædd framkvæmd lögheimilisskráningar sé í samræmi við lög.
8. Umsókn um leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags.
Lögð fram umsókn um að nemandi með lögheimili utan Grímsnes- og Grafningshrepps fái heimild til að stunda nám í leikskóladeild Kerhólsskóla skólaárið 2024-2025.
Sveitarstjórn samþykkir umsóknina samhljóða og að um greiðslur fari samkvæmt viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
9. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.
Lögð fram umsókn um að nemandi með lögheimili utan Grímsnes- og Grafningshrepps fái heimild til að stunda nám í Kerhólsskóla skólaárið 2024-2025. Jafnframt liggur fyrir samþykki skrifstofu menntasviðs Reykjanesbæjar um greiðslur vegna námsvistar nemandans utan lögheimilissveitarfélags.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða beiðnina með fyrirvara um að greidd verði sú stuðningsþjónusta sem Kerhólsskóli telur að nemandinn þurfi.
10. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.
Lögð fram umsókn um að nemandi með lögheimili utan Grímsnes- og Grafningshrepps fái heimild til að stunda nám í Kerhólsskóla skólaárið 2024-2025.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða beiðnina með fyrirvara um samþykki skrifstofu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um greiðslur vegna námsvistar og fyrirvara um að greidd verði sú stuðningsþjónusta sem Kerhólsskóli telur að nemandinn þurfi.
11. Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu héraðsvegar; Grashólsvegur.
Lagt fram til kynningar afrit af bréfi frá Vegagerðinni, dagsett 2. janúar 2025 þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða niðurfellingu Grashólsvegar (3812-01), Grímsnes- og Grafningshrepp af vegaskrá.
12. Erindi frá söngsveitinni Tvennir tímar.
Fyrir liggur erindi frá Elsu Jónsdóttur og Kareni Jónsdóttur félögum í söngsveitinni Tvennir tímar, dagsett 29. nóvember 2024. Í erindinu er þess farið á leit við sveitarfélagið að það styrki söngsveitina um 100.000.- krónur.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að styrkja söngsveitina Tvennir tímar.
13. Raforkumál.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps lýsir yfir áhyggjum vegna þeirra miklu hækkana sem urðu á raforkuverði nú um áramótin. Sveitarstjórn tekur undir bókanir sveitastjórna í Bláskógabyggð og Hrunamannahreppi og hvetur stjórnvöld til að endurskoða fyrirkomulag við verðlagningu og sölu raforku. Sífelldar og ófyrirsjáanlegar verðhækkanir eru ekki boðlegar fyrir almenning og fyrirtæki. Ljóst er að ylræktin getur ekki tekið þátt í þessu kapphlaupi um raforkuna og verður að horfa sérstaklega til hennar til að tryggja henni áframhaldandi mikilvægan sess í þjóðfélaginu.
14. Styrkur Evrópusambandsins Life IceWater verkefni.
Lagðar voru fram upplýsingar um styrk sem Heilbrigðiseftirlitinu hefur verið veittur vegna úrbóta í fráveitumálum á Þingvallasvæðinu.
Fyrra markmið verkefnisins er að setja saman heildstætt og metnaðarfullt fræðslu- og kynningarefni ætlað almenningi. Mikilvægt er að efla vitund almennings á vatnsauðlindarinni og skilningi á ganga vel um hana og vernda. HSL mun útbúa fræðsluefni fyrir almenning um lítil hreinsivirki sem sett yrði á netið/heimasíðu HSL.
Annar hluti verkefnisins HSL snýr að því að meta og kortleggja hvort að hreinsivirki umhverfis Þingvallavatn uppfylli kröfur reglugerðar. Samhliða því yrðu búnir til skýrir og skilvirkir verkferlar, bæði til að knýja eigendur frístundahúsa um svör og til að meta hvort að hreinsivirkið uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.
Markmið verkefnis HSL er að þróa nýtt umsóknarferli fyrir lítil hreinsivirki, samræma vinnu og umsóknarferli milli sveitarfélaga og kalla eftir upplýsingum um hreinsivirki og krefjast úrbóta hjá þeim fasteignaeigendum þar sem þörf er á. Verkefnið krefst þverfaglegs samstarfs byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlits og sveitarfélaga. Byggingarfulltrúi hvers sveitarfélags sér um að samþykkja skipulags- og byggingarferlið, heilbrigðiseftirlitið sér um að samþykkja og veita ráðgjöf um hreinsivirki og sveitarfélögin sjá síðan um að hreinsun hreinsivirkja í sínu sveitarfélagi. Verkefnið felur í sér þróun á rafrænu umsóknarferli fyrir einstaklinga sem vilja setja upp fráveituhreinisilausnir fyrir hús og smáfyrirtæki. Í dag eru samræmdar verklagsreglur ekki til staðar. Leitast verður við að samræma hlutverk og stjórnsýslulega virkni mismunandi aðila.
Þessi aðferð verður prófuð á sumarhúsum umhverfis Þingvallavatn á vatnsverndarsvæði þess, áætlaður fjöldi sumarhúsa eru um 600.
15. Undanþága frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda vegna barnaverndarþjónustu.
Fyrir liggur bréf frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, dagsett 14. janúar 2025 vegna endurnýjunar undanþágu frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda vegna barnaverndarþjónustu. Fyrir liggur að verið er að vinna að þessum málum fyrir hönd sveitarfélagsins innan Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. og erindið því lagt fram til kynningar.
16. Tónlistarskóli Árnesinga – Ósk um aukinn kennslukvóta.
Lögð fram fyrirspurn Helgu Sighvatsdóttur skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga, dagsett 13. janúar 2025, þar sem óskað er eftir auknum kennslukvóta um 1,5 klukkustundir frá fyrra ári. Í bréfinu kemur fram að 7 eru á biðlista eftir námi við skólann.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur oddvita/sveitarstjóra að afla nánari upplýsinga.
Fundarhlé: gert var fundarhlé kl.: 10:55 þar sem sveitarstjórn átti fjarfund með lóðarhöfum að Miðtúni 1-11.
Fundur hófst aftur kl. 11:55.
17. Styrkbeiðni Soroptimistaklúbbs Suðurlands vegna Sigurhæða.
Fyrir liggur bréf dagsett 10. desember 2024 frá verkefnisstjóra Sigurhæða – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi – vegna starfseminnar 2025. Í bréfinu er óskað eftir styrk að upphæð 273.094.- krónur við verkefnið vegna starfsemi ársins 2025.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að styrkja verkefnið.
18. Öryggisbrestur hjá Wise.
Þann 21. desember sl. fékk Grímsnes- og Grafningshreppur tilkynningu frá vinnsluaðila, Wise lausnum ehf, þar sem upplýst var að árás hafi verið gerð á fyrirtækið og árásaraðili hafi náð að komast inn í umhverfi Wise og tilgreind kerfi. Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps var Persónuvernd og persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins tilkynnt um öryggisbrestinn. Wise vinnur enn að rannsókn brestsins með liðsinni öryggisfyrirtækis.
19. Afstaða innviðaráðuneytis vegna beiðni um undanþágu frá skipulagsreglugerð - Heiðarbær við Þingvallavatn.
Lagt fram til kynningar bréf frá innviðaráðuneytinu, dagsett 19. desember 2024, þar sem kynnt er afstaða ráðuneytisins vegna beiðni Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna um undanþágu frá ákvæði d-liðar gr. 5.3.2.5 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um fjarlægð bygginga frá stofn- og tengivegum og gr. 5.3.2.14 um fjarlægð bygginga frá vötnum, ám eða sjó vegna byggingarreita fyrir frístundahús í landi Heiðarbæjar við Þingvallavatn, Bláskógabyggð. Afstaðan var einnig til Grímsnes- og Grafningshrepps til upplýsinga þar sem ein af þeim lóðum sem sótt er um undanþágu fyrir er innan marka sveitarfélagsins.
20. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 235/2024, „Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um rammaáætlun“.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela oddvita/sveitarstjóra að skila inn umsögn um málið.
21. Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 2/2025, „Áformaskjal vegna frumvarps til laga um breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004“.
Lagt fram til kynningar.
22. Forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 1/2025, „Verum hagsýn í rekstri ríkisins“.
Lagt fram til kynningar.
23. Umboð til undirritunar á merkjalýsingum.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps, kt. 590698-2109, Stjórnsýsluhúsinu Borg, 805 Borg, veitir hér með Vigfúsi Þór Hróbjartssyni, skipulagsfulltrúa, umboð til að undirrita, fullgilda og ljúka við alla nauðsynlega skjalagerð í tengslum við merkjalýsingar þar sem Grímsnes- og Grafningshreppur er landeigandi.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 12:05.