Fara í efni

Sveitarstjórn

570. fundur 22. maí 2024 kl. 16:00 - 17:55 Stjórnsýsluhúsinu Borg
Sveitarstjórn
  • Ása Valdís Árnadóttir oddviti
  • Björn Kristinn Pálmarsson
  • Dagný Davíðsdóttir
  • Ragnheiður Eggertsdóttir
  • Smári Bergmann Kolbeinsson
Starfsmenn
  • Iða Marsibil Jónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerðin var rituð í tölvu og hana ritaði Iða Marsibil Jónsdóttir

Ása Valdís Árnadóttir oddviti setti fund, bauð fundargesti velkomna og leitaði athugasemda við fundarboð, engar athugasemdir voru við boðun fundarins.

1. Fundargerðir.

a) Fundargerð 19. fundar Skólanefndar, 7. maí 2024.
Mál nr. 7. Þarfnast umræðu sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 19. fundar Skólanefndar sem haldinn var 7. maí 2024.
Mál nr. 7 Önnur mál.
Bókun Skólanefndar segir að starfsaðstæður í Kerhólsskóla séu ekki eins og best sé á kosið, hvorki fyrir nemendur né starfsfólk.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að óska eftir greinargerð frá stjórnendum skólans um þá þætti sem bæta þarf úr.
b) Fundargerð 280. fundar skipulagsnefndar UTU, 10. maí 2024.
Mál nr. 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20 og 26 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 280. fundar skipulagsnefndar UTU sem haldinn var 10. maí 2024.
Mál nr. 13; Stóra-Borg lóð 16, L218060, Borgarheiði; Íbúðarsvæði með rúmum byggingarheimildum; Deiliskipulag – 2302027.
Svæðið sem um ræðir telst til landbúnaðarlands L3 samkvæmt flokkun aðalskipulags. Á L3 svæðum þar sem gert er ráð fyrir því að heimilt verði að byggja upp litlar landspildur til fastrar búsetu, landbúnaðarstarfsemi og minniháttar atvinnustarfsemi sem er jafnvel ótengd landbúnaði. Landspildur verði að jafnaði 1-15 ha að stærð. Nýtingarhlutfall er 0,05 og heildarbyggingarmagn á lóðum/landspildum er að hámarki 1.500 m², nema mannvirki séu tengd landbúnaðarstarfsemi. Hingað til hefur ekki verið fest í gildi deiliskipulag á grundvelli heimilda aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps er varðar L3 landbúnaðarsvæði og er því ekki fordæmi fyrir viðlíka skipulagi og uppbyggingu innan sveitarfélagsins. Innan umsagnar Skipulagsstofnunar (SLS) er ekki talið að skipulag 32 samliggjandi lóða á landbúnaðarlandi samræmist stefnu um að halda dreifbýlisyfirbragði innan sveitarfélagsins þ.e. ekki vera með samfellda byggð, götumynd eða litlar samliggjandi lóðir. Að mati sveitarstjórnar teljast viðkomandi lóðir ekki til lítilla lóða eða skapa götumynd líkt og um þéttbýli eða íbúðarsvæði sé að ræða. Til samanburðar má ætla að á meðallóð innan Borgarheiði sé um 1,2 ha. Í hefðbundnu þéttbýli mætti gera ráð fyrir um 15 einbýlishúsalóðum á 1,2 ha svæði. Út frá þeim forsendum telur nefndin að sannarlega sé um byggð með dreifbýlisyfirbragði að ræða. SLS bendir jafnframt á að svæði sem uppfylli þau skilyrði að a.m.k. 50 manns búi innan þeirra og fjarlægð á milli húsa fari að jafnaði ekki yfir 200 metra geti talist til þéttbýlis. Að auki er tiltekið í skipulagsreglugerð að ákvörðun um slíkt fari eftir vilja sveitarstjórnar. Sveitarstjórn bendir á að víða eru byggðir sem uppfylla framlögð skilyrði og voru t.d. áður frístundasvæði en hefur verið breytt í íbúðarsvæði.
Sveitarfélagi ber engin skylda til að skilgreina slík svæði sem þéttbýli og er deiliskipulag Borgarheiði ekki undanskilin því að mati sveitarstjórnar, þótt svo að svæðið liggi að þéttbýlismörkum Borgar í Grímsnesi. Þvert á móti telur sveitarstjórn að fjölbreytileiki í búsetumöguleikum í grennd við þéttbýli skapi sjaldgæf búsetugæði gagnvart íbúum sem vilja búa í dreifbýli en nýta sér þá þjónustu sem þéttbýlið bíður upp á í göngu- og hjólafæri. Til mótvægis við umsögn SLS hafa byggingarreitir innan tillögunnar verið minnkaðir, með þeim hætti er leitast við að gefa aukið svigrúm á milli bygginga innan svæðisins.
Sveitarstjórn samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Að mati sveitarstjórnar hefur verið brugðist við umsögn SLS með fullnægjandi hætti innan uppfærðra deiliskipulagsgagna sem bárust eftir fund skipulagsnefndar. Mælist sveitarstjórn til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Gögnin verði send Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga.
Björn Kristinn Pálmarsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Mál nr. 14; Klausturhólar 177601; Breytt lega vegar; Framkvæmdarleyfi – 2405019.
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til breikkunar á vegi inn á svæðið í samræmi við framlagða lýsingu og uppdrátt. Tilgangur breytingarinnar er að auka umferðaröryggi á svæðinu.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við útgáfu framkvæmdaleyfis. Fyrir liggur samþykki frá landeiganda Klausturhóla lands L206827 og forsvarsmanni sumarhúsafélags svæðisins og er því ekki talin þörf á að grenndarkynna framkvæmdina frekar. 
Mál nr. 15; Giljabakki (Minni-Bær) L169227; Landbúnaðarsvæði L3; Deiliskipulag – 2405018.
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi sem tekur til landspildunnar Minni-Bæjar L169227, sem verður Giljabakki, í samræmi við stefnumörkun skipulagsins. Í skipulaginu eru skilgreindar heimildir sem taka til uppbyggingar íbúðarhúsa, hesthúss og skemmu/skýlis. 
Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagið samhljóða og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.
Mál nr. 16; Nesjavallavirkjun; Vinnslu- og niðurdælingarholur á Nesjavöllum; Umsagnarbeiðni - 2404064.
Lögð er fram umsagnarbeiðni vegna tilkynningar um matsskyldu sem tekur til vinnslu og niðurdælingahola á Nesjavöllum. Orka náttúrunnar áformar borun tíu nýrra vinnsluhola og þriggja niðurdælingarhola, við Nesjavallavirkjun í þeim tilgangi að viðhalda vinnslugetu virkjunarinnar og auka hlut djúprar niðurdælingar ofan í jarðhitageyminn í stað millidjúprar niðurdælingar. Einnig er áformuð aukin efnistaka úr námunni við Stangarháls. Við útfærslu framkvæmda er áhersla lögð á að stækka núverandi borsvæði til að koma nýjum borholum fyrir, bæði til að draga eins og kostur er úr raski sem og að nýta innviði, s.s. vegi og lagnir, sem fyrir eru. Að mati sveitarstjórnar er með fullnægjandi hætti gert grein fyrir framkvæmdinni, umfangi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Auknar framkvæmdir innan svæðisins ásamt efnistöku eru innan skilgreinds iðnaðarsvæðis og á efnistökusvæði samkv. aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps og er því ekki gert ráð fyrir breytingu á aðalskipulagi. Samhliða tilkynningu er unnið að deiliskipulagsbreytingu sem tekur til svæðisins. Allar framkvæmdir innan svæðisins eru eftir atvikum háðar útgáfu framkvæmdaleyfa og/eða byggingarleyfi. 
Að mati sveitarstjórnar eru þær framkvæmdir tilgreindar sem eru innan skýrslunnar ekki þess eðlis að verkefnið sé háð mati á umhverfisáhrifum.
Mál nr. 17; Skógarbrekkur L233752; Skógrækt; Framkvæmdarleyfi – 2404068. 
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Skógarbrekku L233752. Um er að ræða 50 ha til viðbótar við þá 90 sem leyfi hefur verið fyrir. Uppfærð gögn í formi ræktunaráætlunar og reitakorts eru lögð fram við umsókn málsins frá afgreiðslu skipulagsnefndar. Svæðið sem um ræðir var innan tilkynningar um matskyldu sem tók til skógræktaráforma í Álfadal, Álfheimum og Skógarbrekkum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Málið verði grenndarkynnt eigendum aðliggjandi landeigna. Við tilkynningu málsins bárust
umsagnir frá helstu umsagnaraðilum sem matsskylduákvörðunin tekur til. Mælist sveitarstjórn til þess að leyfið verði bundið þeim skilyrðum sem þar koma fram er varðar að framkvæmdir innan svæðisins fari ekki fram á varptíma, áburðargjöf verði haldið í lágmarki.
Mál nr. 18; Sólbakki 9 L210820; Breytt lóðarmörk og byggingarreitur; Deiliskipulagsbreyting – 2405000. 
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til óverulegrar breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Syðri-Brúar. Í breytingunni felst breytt afmörkun lóða Sólbakka 7 og 9 auk þess sem skilgreindur er byggingarreitur á lóð Sólbakka 9. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu.
Mál nr. 19; Borgarhóll 168437; Hreinsistöð; Framkvæmdarleyfi – 2405032. 
Lögð er fram umsókn vegna útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir niðursetningu á nýrri hreinsistöð við Borg í Grímsnes- og Grafningshrepp. Helstu magntölur eru: Fráveitulagnir 740 m, færsla á hreinsistöð 1 stk, girðing og hlið 136 m. Um er að ræða 932 PE þriggja þrepa hreinsistöð með siturbeði á steyptum undirstöðum. Framkvæmdinni er ætlað að tryggja hreinsun skólps í nýju hverfi við Borg í Grímsnesi. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdin er í samræmi við aðal- og deiliskipulagsáætlanir sveitarfélagsins.
Mál nr. 20; Hestvíkurvegur 18 (L170895); byggingarheimild; sumarbústaður – viðbygging – 2042035. 
Erindi sett að nýju fyrir fund, grenndarkynningu er lokið. Móttekin er umsókn þ. 11.12.2023 um byggingarheimild fyrir 69,4 m2 viðbyggingu við sumarbústað á sumarbústaðalandinu Hestvíkurvegur 18 L170895 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heildarstærð eftir stækkun verður 147,2 m2. Athugasemdir bárust vegna málsins við grenndarkynningu.
Sveitarstjórn tekur undir þær athugasemdir sem bárust vegna málsins. Að mati sveitarstjórnar er ljóst að aðliggjandi lóðarhafi verður fyrir skerðingu gagnvart útsýni vegna umsóttrar viðbyggingar sem er ekki innan skilgreinds byggingarreits samkvæmt deiliskipulagi. Sveitarstjórn bendir þó á að viðbyggingar við sumarhús sem eru staðsett nær ám, vötnum eða vegum hafa verið heimilaðar gegn því að þær fari ekki nær þeim takmarkandi þáttum sem um ræðir hverju sinni með fyrirvara um grenndarkynningu slíkra framkvæmda. Athugasemd vegna grenndarkynningar barst eftir að auglýstum kynningartíma lauk. Að mati sveitarstjórnar er þó ekki forsvaranlegt að vísa athugasemdum frá vegna þess annmarka og telur nauðsynlegt að taka athugasemdir sem bárust til efnislegrar meðferðar. Að mati sveitarstjórnar er ekki óeðlilegt að slíkt svigrúm sé veitt, sérstaklega í því ljósi að tilhögun grenndarkynningar er nú með þeim hætti að þær fara eingöngu fram með rafrænum hætti í gegnum pósthólf á island.is sem er töluverð breyting frá tilhögun grenndarkynninga undanfarna áratugi. Bendir sveitarstjórn á að samkvæmt heimildum aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps er hámarksstærð aukahúss á lóð ekki lengur fest í 40 fm. Er því sá möguleiki til staðar að núverandi hús innan lóðarinnar verði skráð sem aukahús á lóð og að nýtt hús verði byggt innan skilgreinds byggingarreits samkvæmt deiliskipulagi gegn því að unnin verði óveruleg breyting á heimildum deiliskipulags er varðar stærðir aukahúsa á lóð.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að synja umsókn um byggingarheimild í núverandi mynd.
Mál nr. 26; Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 24-204 - 2404004F.
Lögð er fram til kynningar fundargerð byggingarfulltrúa nr. 24 – 204. 
c) Fundargerð 109. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 10. maí 2024. 
Lögð fram til kynningar fundargerð 109. fundar stjórnar byggðasamlags UTU sem haldinn var 10. maí 2024.
d) Fundargerð 110. fundar stjórnar byggðasamlags UTU, 10. maí 2024. 
Mál nr. 1 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð 109. fundar stjórnar byggðasamlags UTU sem haldinn var 10. maí 2024.
Mál nr. 1; Samþykkt UTU, síðari umræða.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða samþykkt fyrir Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita bs., í síðari umræðu.
e) Fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, 26. apríl 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem haldinn var 26. apríl 2024.
f) Fundargerð fagnefndar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, 30. apríl 2024.
Mál nr. 1, 2 og 3 þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar.
Lögð fram fundargerð fagnefndar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem haldinn var 30. apríl 2024.
Mál nr. 1; Lögð fram tillaga að reglum um stoðþjónustu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu að reglum um stoðþjónustu.
Mál nr. 2; Lögð fram tillaga að reglum um stuðningsþjónustu.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu að reglum um stuðningsþjónustu.
Mál nr. 3; Lögð fram tillaga vegna breytinga á tekju- og eignamörkum um sérstakan húsnæðisstuðning.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða tillögu vegna breytinga á tekju- og eignamörkum um sérstakan húsnæðisstuðning.
g) Fundargerð 609. fundar stjórnar SASS, 10. maí 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 609. fundar stjórnar SASS sem haldinn var 10. maí 2024.
h) Fundargerð 72. fundar stjórnar Bergrisans bs., 22. apríl 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 72. fundar stjórnar Bergrisans bs., sem haldinn var 22. apríl 2024.
i) Fundargerð 32. fundar Héraðsnefndar Árnesinga bs., 9. apríl 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 32. fundar Héraðsnefndar Árnesinga bs., sem haldinn var 9. apríl 2024.
j) Fundargerð 235. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 6. maí 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 235. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands sem haldinn var 6. maí 2024.
k) Fundargerð 326. fundar stjórnar Sorpsstöðvar Suðurlands, 14. maí 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 326. fundar stjórnar SOS sem haldinn var 14. maí 2024.
l) Fundargerð 72. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga, 2. maí 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 72. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var 2. maí 2024.
m) Fundargerð 6. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 15. maí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 6. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 15. maí 2023.
n) Fundargerð 7. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 12. júní 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 7. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 12. júní 2023.
o) Fundargerð 8. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 12. júlí 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 8. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 12. júlí 2023.
p) Fundargerð 9. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 18. september 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 9. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 18. september 2023.
q) Fundargerð 10. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 8. nóvember 2023.
Lögð fram til kynningar fundargerð 10. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 8. nóvember 2023.
r) Fundargerð 11. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 12. janúar 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 11. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 12. janúar 2024.
s) Fundargerð 12. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 18. mars 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 12. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 18. mars 2024.
t) Fundargerð 13. fundar stjórnar Arnardrangs hses., 22. apríl 2024.
Lögð fram til kynningar fundargerð 13. fundar stjórnar Arnardrangs hses., sem haldinn var 22. apríl 2024.
2. Ársreikningur Grímsnes- og Grafningshrepps 2023.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fresta afgreiðslu ársreiknings vegna óviðráðanlegra ástæðna.
3. Starfsmannamál.
Jóna Björg Jónsdóttir skólastjóri Kerhólsskóla hefur sagt stöðu sinni lausri. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að ganga til samninga við Sigrúnu Hreiðarsdóttur deildarstjóra grunnskóladeildar um stöðu skólastjóra Kerhólsskóla tímabundið til eins árs.
Sveitarstjórn þakkar Jónu Björgu fyrir vel unnin störf og gott og farsælt samstarf.
4. Innleiðing svæðisbundinna farsældarráða.
Fyrir liggur erindi frá Bjarna Guðmundssyni dagsett 16. maí 2024, f.h. SASS þar sem leitað er umboðs sveitarfélagsins til þess að gera viðaukasamning undir merkjum sóknaráætlunar við mennta- og barnamálaráðuneytið til tveggja ára vegna fjármögnunar innleiðingar svæðisbundinna farsældarráða. Samningur felur í sér heimild til þess að ráða í ½ - 1 stöðu verkefnisstjóra eftir umfangi verkefna, gert er ráð fyrir einu farsældarráði í hverjum landshluta.
Meginmarkmið samningsins verður fyrsti fundur svæðisbundins farsældarráðs þar sem mótuð verður áætlun um forgangsröðun aðgerða um farsæld barna innan landshlutans til næstu fjögurra ára skv. 5. gr. farsældarlaga.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að veita SASS umboð til að gera viðaukasamning undir merkjum sóknaráætlunar við mennta- og barnamálaráðuneytið.
5. Erindi frá Torfæruklúbbnum – ósk um leyfi fyrir Bikarmóti í torfæru.
Fyrir liggur beiðni frá Torfæruklúbbnum um leyfi til að halda Bikarmóti í torfæru laugardaginn 8. júní í námum við Svínavatn, Stangarhyl, L210787.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við að keppnin verði haldin.
6. Ársreikningar Leikfélagsins Borg.
Ársreikningar Leikfélagsins Borg 2022 og 2023 lagðir fram til kynningar.
7. Deiliskipulag frístundabyggðar Heiðarbæjar við Þingvallavatn.
Lögð er fram tillaga er varðar nýtt deiliskipulag frístundabyggðar Heiðarbæjar við Þingvallavatn eftir auglýsingu. Deiliskipulagstillaga hefur hlotið málsmeðferð líkt og svæðið sem tillagan tekur til sé eingöngu innan marka Bláskógabyggðar. Hluti svæðisins sem tillagan fjallar um er hins vegar innan marka Grímsnes- og Grafningshrepps. Tillagan hefur nú þegar verið auglýst tvisvar auk þess sem skipulagslýsing var kynnt í upphafi verkefnisins. Er tillagan lögð fram við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps eftir seinni auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar.
Markmið deiliskipulagsins er að hafa til staðar deiliskipulag sem gefur heildarmynd af svæðinu þar sem lóðarmörk, aðgengi og gönguleiðir eru skýrar. Jafnframt að fylgja eftir stefnu Bláskógabyggðar um að til skuli vera deiliskipulag fyrir eldri frístundasvæði. Með deiliskipulagsgerðinni er unnið að því að samþætta lóðamörk, auka skilvirkni við umsýslu á lóðum ásamt því að ramma inn svæðið og nýtingu þess í heild og einstaka þætti þess s.s. innviði, náttúruvernd og aðgengi. Athugasemdir og umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt viðbragða og andsvara.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gerir ekki athugasemd við málsmeðferð málsins og bendir á að sveitarfélögin Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð standa að sameiginlegri skipulagsnefnd undir formerkjum Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita. Í öllum tilfellum hefur nefndin vísað málinu til afgreiðslu Bláskógabyggðar. Nú liggja fyrir athugasemdir Skipulagsstofnunar (SLS) vegna gildistöku málsins sem taka m.a. til málsmeðferðar þess auk þess sem farið er fram á að unnið verði hættumat fyrir svæðið vegna hættu á grjóthruni. Að auki eru settar fram athugasemdir er varðar staðsetningu byggingarreita of nærri stofn- og tengivegum og ám og vötnum. Ljóst er að leggja þarf tillöguna fram til umfjöllunar að nýju þar sem tekin er afstaða til athugasemda sem bárust innan afgreiðslu SLS. Að öðru leyti gerir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps ekki athugasemdir við málsmeðferð málsins sem sveitarstjórn metur fullnægjandi. Mælist sveitarstjórn til þess að málið komi hér eftir einnig til afgreiðslu hjá Grímsnes- og Grafningshreppi vegna áframhaldandi vinnslu þess.
8. Orlof húsmæðra – Ársreikningur 2023.
Lagt fram til kynningar.
9. Umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps um mál nr. 899 og 900 á 154. löggjafarþingi.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps tekur undir umsagnir Samtaka orkusveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga um mál nr. 899 og 900 á 154. löggjafarþingi.
Sveitarstjórn tekur sérstaklega undir eftirfarandi punkta:
-Áður en uppbygging vindorkuvera hefst hér á landi þarf Alþingi að tryggja sanngjarna hlutdeild nærsamfélaga í arði af orkunýtingu.
- Ákjósanlegt hefði verið að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorkuvera fylgdi aðgerðaáætlun þar sem fram kæmi hvernig hrinda ætti ætluninni í framkvæmd.
- Mikilvægt er að unnar verði skýrar leiðbeiningar um málsmeðferð við uppbyggingu vindorkuvera.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða umsögnina.
10. Úrskurður innviðaráðuneytisins í kæru Karls Heimis Karlssonar og Rúnu Hjaltested Guðmundsdóttur á ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps.
Fyrir liggur úrskurður innviðaráðuneytisins í máli IRN23120117, kæru Karls Heimis Karlssonar og Rúnu Hjaltested Guðmundsdóttur á ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps þess efnis að hafna kröfu þeirra um að breyta gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins svo kærendur geti fengið skráð lögheimili þar sem þau hafa fasta búsetu.
Ráðuneytið bendir á í úrskurðinum að óumdeilt sé í málinu að fasteignin Tjarnhólsbraut 82 sem kærendur festu kaup á í maí 2021 er skráð sem frístundahús og er staðsett í frístundabyggð samkvæmt samþykktu aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Í úrskurðinum segir jafnframt: „Í 11. tölulið 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 10. gr. laga nr. 30/2023, sem áður var 9. töluliður, er frístundabyggð skilgreind sem svæði fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til fastrar búsetu. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, grein 1.3., er frístundabyggð skilgreind sem „svæði þar sem tvö eða fleiri frístundahús standa í þyrpingu eða nýta sameiginlega tengingu við veg eða veitur. Frístundabyggð er ekki ætluð til fastrar búsetu.“ Í grein 6.2 um stefnu í landnotkun í sömu reglugerð kemur fram í h. lið um frístundabyggð: „Svæði fyrir frístundahús, tvö eða fleiri og nærþjónustu sem þeim tengist, þ.m.t. orlofshús og varanlega staðsett hjólhýsi. Föst búseta er óheimil í frístundabyggð.“
Kærendur fóru þess á leit við sveitarfélagið að aðalskipulagi hreppsins yrði breytt svo kærendur gætu farið til Þjóðskrár Íslands og skráð lögheimili sitt að Tjarnahólsbraut 82. Kröfu kærenda var hafnað og var ákvörðun sveitarfélagsins kærð til ráðuneytisins á grundvelli 111. gr., sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Ráðuneytið bendir á að aðalskipulag sætir ekki endurskoðunarvaldi ráðherra á grundvelli kæruheimilda sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ekki er gert ráð fyrir því í skipulagslögum nr. 123/2010, eða skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að einstaklingar eða lögaðilar geti gert kröfu um breytingu á aðalskipulagi í eigin þágu en vissulega geta þeir komið með ábendingar sem sveitarfélög geta tekið tillit til við næstu endurskoðun. Sama gildir um rétt einstaklinga og lögaðila til ábendinga á öðrum almennum stjórnvaldsfyrirmælum, svo sem reglum. Synjun eða höfnun skapar ekki rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Ráðuneytið brestur því heimildir til að taka málið til efnislegrar meðferðar og er málinu því vísað frá
ráðuneytinu.“
11. Ályktun aðalfundar Búsetufrelsis. 
Fyrir liggur tölvupóstur frá Valdimar Óskarssyni formanni Búsetufrelsis, dags. 11. apríl 2024, þar sem kynnt er eftirfarandi ályktun aðalfundar Búsetufrelsis: „Á aðalfundi Búsetufrelsis, sem haldinn var að Borg Grímsnesi 10. apríl 2024, var einróma samþykkt að beina því til sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps að sveitarstjórn hafi samráð um úrlausn mála er varða fasta búsetu í heilsárshúsum í frístundabyggð.“
Sveitarstjórn bendir á að í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, sé lögheimili skilgreint sem „sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu“. Í 3. mgr. 2. gr. laganna segi um skráningu lögheimilis: „Lögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og hefur staðfang.“ Skráning húsnæðis sem íbúðarhúss ráðist af því hvernig landnotkun viðkomandi svæðis sé skilgreind í skipulagsáætlun sveitarfélags, sbr. ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Telur sveitarstjórn að af þessu megi ráða að lögheimili verði ekki skráð í frístundahúsi, nema þá e.t.v. að það standi á svæði sem sé skilgreint undir íbúðarhúsnæði í aðal- og deiliskipulagi og það uppfylli kröfur til slíks húsnæðis samkvæmt mannvirkjalögum og byggingareglugerð. Til hliðsjónar vísar sveitarstjórn hér til 11. töluliðar 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 10. gr. laga nr. 30/2023, þar sem hugtakið frístundabyggð er skilgreint með eftirfarandi hætti: „Frístundabyggð: svæði fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til fastrar búsetu.“ Þá bendir sveitarstjórn á eftirfarandi skilgreiningu á hugtakinu frístundabyggð í gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013: „Frístundabyggð: Svæði þar sem tvö eða fleiri frístundahús standa í þyrpingu eða nýta sameiginlega tengingu við veg eða veitur. Frístundabyggð er ekki ætluð til fastrar búsetur.“ Í gr. 6.1 í sömu reglugerð er landnotkunarflokkurinn Frístundabyggð (F) jafnframt skilgreindur með eftirfarandi hætti: „Svæði fyrir frístundahús, tvö eða fleiri og nærþjónustu sem þeim tengist, þ.m.t. orlofshús og varanlega staðsett hjólhýsi. Föst búseta er óheimil í frístundabyggðum.“
Samkvæmt framangreindu telur sveitarstjórn að það liggi fyrir með skýrum hætti samkvæmt lögum og reglugerðum að föst búseta sé óheimil á svæði sem skilgreint er sem frístundabyggð í skipulagsáætlun sveitarfélags. Þá bendir sveitarstjórn á að hugtakið heilsárhús sé ekki að finna í lögum. Í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé eingöngu gert ráð fyrir frístundahúsum í frístundabyggð.
Af því leiðir að sveitarstjórn hafnar samhljóða beiðni Búsetufrelsis um samráð um úrlausn mála er varða fasta búsetu í heilsárshúsum í frístundabyggð.
12. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir gistingu í flokki II, H Frístundahús að Lyngbrekku 7 fnr. 229-2749.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 3. maí 2024 um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II H Frístundahús að Lyngbrekku 7, 805 Selfossi, fnr. 229-2749. 
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera ekki athugasemdir við leyfisveitinguna með fyrirvara um jákvæða umsögn byggingafulltrúa.
13. Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi um umsögn vegna umsóknar um leyfi til reksturs fyrir
gistingu í flokki II, H Frístundahús að Bústjórabyggð 7 fnr. 236-4917.
Fyrir liggur bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dagsett 7. maí 2024 um umsögn vegna umsóknar umleyfi til reksturs gististaðar í flokki II H, Frístunda
hús að Bústjórabyggð 7, fnr. 236-4917.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II H að Bústjórabyggð 7, fnr. 236-4917 á þeim grundvelli að leyfisveitingin samræmist ekki heimildum gildandi deiliskipulags svæðisins.
Sveitarstjórn bendir á að heimildir aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032 gera ráð fyrir að gististarfsemi geti verið á frístundasvæðum. Þó er gerð krafa um að gististarfsemi sé skilgreind í skilmálum gildandi deiliskipulags. Heimildir fyrir gististarfsemi innan deiliskipulags eru háðar því að fjöldi bílastæða innan lóðar sé fullnægjandi og að enginn lóðarhafi innan deiliskipulagssvæðisins leggist gegn starfseminni við breytingu á deiliskipulagi eða við gerð nýs deiliskipulags.
14. Fundargerð aðalfundar Landskerfa bókasafna. 
Lagt fram til kynningar. 
15. Ársskýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands 2023. 
Lagt fram til kynningar. 
16. Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 98/2024, „Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu“.
Lagt fram til kynningar. 
17. Beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsög um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir). 1114. mál.
Lagt fram til kynningar.

  

 

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl.: 17:55.







Skjöl

Getum við bætt efni síðunnar?